Monday, April 16, 2007

frh... Huaráz og cordillera blanca - 2

Á leiðinni upp sprakk á rútunni og við fengum því aukatíma til að virða fyrir okkur hæstu tindana, sátum eiginlega fyrir neðan þá meðan skipt var um dekk. Fórum síðan upp að vatninu Quistococha, rosalega fallegu túrkisbláu vatni. Cocha þýðir einmitt vatn á quechua, hinu opinbera tungumálinu í Perú. Quistococha er annað tveggja stöðuvatna í þessum dal, Quistococha er sagt vera kvenkyns vatn en hitt vatnið karlkyns. Þjóðsagan segir að Incaprinsinn Huascar og indíánaprinsessan Huanda hafi fellt hugi saman en ekki mátt eigast. Þeim hafi verið refsað með því að láta dauðann bíða þeirra á sitthvorum tindinum, Huanda við tindinn Huandoy og Huascar við tindinn Huascarán (sem er einmitt hæsti tindurinn í 6768 m hæð). Þau grétu bæði mikið og tárin mynduðu vötnin tvö í dalnum milli tindanna. Tár prinsessunnar voru túrkisblá og mynduðu kvenkyns vatnið Quistococha. Á leiðinni til baka til Huaráz stoppuðum við í bænum Yungay en árið 1970 var Yungay um 20.000 manna bær. Sunnudaginn 31. maí 1970 urðu hins vegar miklir jarðskjálftar á svæðinu og mikið snjó- og aurflóð féll úr Huascarán. Aðeins 340 manns lifðu af, 250 börn sem voru á sirkussýningu nokkrum kílómetrum frá bænum og um 90 manns sem voru að gera að leiðum á 2 efstu pöllum kirkjugarðsins í miðjum bænum (en hann var á nokkrum pöllum). Fólkið í kirkjugarðinum horfði sem sagt á bæinn sinn þurrkast út á örfáum mínútum. Í sama jarðskjálfta skemmdust margir aðrir bæir mikið. Meðal annars má nefna að í Huaráz létust 30.000 manns þennan dag, 50% íbúafjöldans. Í dag er búið að færa Yungay um stað, í öruggt skjól við lítið fjall. Það var svolítið skrýtið að vera þar sem gamli bærinn hafði staðið, í raun er svæðið eins og risastórt leiði, krossar, blóm og minnisvarðar úti um allt.

No comments: