Saturday, January 13, 2007

9. janúar - LIMA otra vez

Já við erum komin til Lima. Já og ég datt. Já úti á miðri götu, innan um alla bílana. Féll kylliflöt og fannst eins og tíminn stoppaði, ég á maganum úti á miðri götu í Lima já þar sem allir strætóarnir í öllum regnbogans litum keyra eins og vitleysingar. Fékk deja vu frá því ég varð fyrir hjóli í Milano hér forðum daga. En þetta reddaðist. Pétri finnst hann þurfa að passa mig í umferðinni í Lima, finnst ég svo vitlaus, dettandi og svona ;)
Strætókerfið er annars ótrúlegt. Það er kerfi sem er þó ekki kerfi. Strætóarnir eru af öllum gerðum, stærðum og litum. Flestir eldgamlir! Í hverjum strætó er náttúrulega bílstjóri og svo dyravörður. Dyravörðurinn hangir mestallan tímann út úr strætónum að lokka fólk upp í strætóinn sinn. Mér finnst strætóarnir eiginlega það skemmtilegasta við Lima. Bara að sitja í strætó og fá umferðina beint í æð, eða öllu heldur chaos beint í æð, horfa svo á allt þetta fólk út um gluggann. Svo þegar strætóarnir stoppa þá kemur fólk og gengur á milli strætóa úti á miðri götu og reynir að selja manni gos og ís og nammi inn um gluggann.
Lima er risastór, skiptist í mörg hverfi. Eitt af fínustu hverfunum heitir Miraflores og þar eru líka flestir túristarnir. Eitt af fátækustu hverfunum heitir San Martín de Porres og þar er spítalinn okkar. Við förum því í strætó frá því fínasta að því fátækasta og þvílíkur munur!
Svolítið gaman líka núna að það er enn fullt af jólaskrauti uppi. Svolítið fyndið jólaskraut, svona einhvern veginn of mikið gyllt etc... Svona eins og kirkjurnar hér í Perú, oftroðnar af gulli og silfri.
Í Lima er fullt af öryggisvörðum sem standa bara og fylgjast með úti á götum. Þeir virðast allir hafa voða áhyggjur af okkur. Við stöndum náttúrulega svolítið út úr, allir aðrir lágvaxnir og dökkir, við erum ekki alveg þannig! Öryggisverðirnir heilsa okkur alltaf og fylgjast með okkur þar til við erum komin úr augsýn. Svolítið huggulegt að hafa hafa svona einkabarnapíur samt.
Fórum í súpermarkað áðan, súpermarkaðinn sem við versluðum alltaf í fyrir 2 og hálfu ári þegar við vorum hérna. Þar er hægt að kaupa svona barnaafmæliskökur og eitt sýnishornið var kaka með mynd af Latabæ! Mér þótti þetta stórmerkilegt! Íþróttaálfurinn heitir Sportacus í Perú. Svolítið töff! Síðan kom ég niður á hótel og þá var Latibær í sjónvarpinu. Latibær í útrás, maður gerir sér sennilega ekki grein fyrir hvað þetta fyrirbæri gengur vel. Litli frændi hennar Flor er mikill aðdáandi Latabæjar og Flor finnst ofsalega sniðugt að íþróttaálfurinn búi í sama bæjarfélagi og ég. Já það er merkilegt að búa á Seltjarnarnesi... Seltjarnarnesið er lítið og lágt, búa þar fáir og hugsa smátt...

No comments: