Tuesday, February 13, 2007

Af Iquitos

Ég elska Iquitos. Og ég elska hótelið okkar. Og það er rosa fínt á spítalanum hér, eiginlega betra hér en í Lima því hérna eru þeir að kenna okkur fullt!
Alla vega, Iquitos er einstök borg, hér eru nær engir bílar, eiginlega bara lítil mótorhjól og svona þriggja hjóal mótorhjól með "aftursætum". Allt er svo litríkt, rautt og grænt og gult etc. Öll húsin eru frekar lágreist. Aðaltorgið er rosalega fallegt, við erum með útsýni yfir það úr hótelglugganum okkar. Áreitið hérna er rosalegt, það var stundum mikið í Lima en hér er það rosalegt. Pétur fór til dæmis einn út áðan að taka myndir og hrökklaðist eiginlega strax aftur inn. Fullorðna fólkið horfir, sölufólk þyrpist að manni og krakkar hópast í kringum mann, annaðhvort til að pota í mann eða til að betla. Fólkið hérna er svo lífsglatt, allir úti á götum á kvöldin. Svo er náttúrulega karnival í gangi núna. Maður tekur helst eftir því á formi vatnsblöðrukasts (sem við höfum ekki farið varhluta af) en næstu helgi mun það víst ná hámarki með því að fólk hellir bjór yfir hvort annað. Spennandi!
Í dag fórum við og Mercedes á markað sem er í hverfi í Iquitos sem heitir Belén. Belén er fátækt hverfi, húsin þar standa á stöplum og fljóta á vatni/fljótinu en setjast svo niður í drullusvað í þurrkatíð. Nú er ekki þurrkatíð. Alla vega, við fórum á markaðinn sem er ótrúlegur. Þar er allt selt, náttúruleg lyf úr frumskóginum, nýdauðir kjúklingar, skjaldbökur, krydd, töskur etc etc etc. Það er víst í lagi fyrir túrista að fara á markaðinn en maður á ekki að taka nein verðmæti með sér. Það er hins vegar ekki í lagi að ætla að fara að labba í Belén. Ég ætlaði rétt að kíkja inn í eina götuna og lögga sem var rétt hjá hrópaði á okkur og bað okkur að fara ekki inn í Belén. Við skildum öll verðmæti eftir heima áður en við fórum á markaðinn en ég tók samt myndavélina mína með (sem er lítil). Ég tók hana samt bara einu sinni upp og tók 3 myndir. Við Mercedes ætlum að kaupa okkur einnota myndavél og fara aftur þarna. Ég á reyndar samt nokkrar myndir af þessum markaði frá því ég og Pétur komum hingað fyrir rúmum 2 árum, þá vorum við líka í hóp af túristum með guide.

Hótelið okkar er rosa fínt, við erum með rosa fína sundlaug og flottan morgunverð og flott herbergi og það besta: þráðlaust net!!! Það er reyndar svolítið stopult í herberginu okkar en það er í fínu lagi að sitja í einum af sófunum niðri í lobbyi og vera á netinu.
Jæja, við ætlum að vera hér á spítalanum fram á föstudag. Svo var ég að fá svar frá lækninum í frumskóginum, hún vill gjarnan fá okkur í heimsókn næstu helgi svo það getur bara vel verið að við drífum okkur inn í frumskóg. Ég er alveg til í það, ég dýrka frumskóginn. Það er bara eitthvað svo sérstök stemning að vera þar. Síðasti sunnudagur var líka frábær, ekki síst út af slöngunum og öpunum sem við heimsóttum.
Jæja, ætla að reyna að setja einhverjar myndir af Iquitos og frumskóginum inn á heimasíðuna.

2 comments:

Unknown said...

Ekki lítið gaman að lesa ferðasöguna þína Berglind!!

Grái hversdagsleikurinn hérna heima verður ekki alveg eins grár á meðan :-)

Brynhildur

Hallsystur said...

Svaka spennó að fara inn í frumskóginn! durumm durrumm...
...karen ég stend á jafnmiklu gati og þú hehe! :-)
knúsíknús Magga