Ég hef aldrei á ævinni fengið eins slæmar harðsperrur. Þær voru slæmar á fimmtudaginn en í gær... jesús minn almáttugur. Ég varð að standa upp og setjast niður með handafli einu saman. Er mun betri í dag, stefni á næsta maraþonhlaup á mánudag ;)
Verð að segja að ég öfunda Pétur, hann getur sett myndir inn á bloggið sitt. Ég get það ekki, er búin að reyna oft, það kemur alltaf upp gluggi þar sem stendur ad verid sé að setja myndir inn á bloggið en svo bara gerist ekki neitt og svo verð ég að hætta á netinu. En ég er byrjuð að setja myndir inn á myndasíðuna! Vúhú!
Á fimmtudaginn komu perúísku vinir okkar hingað óvænt og fóru með okkur á þjóðdansasýningu. Ég reyndar vissi af þessu þar sem að sýningin býður upp á afmælistilboð fyrir afmælishópa, það er afmælisbarnið fær frítt inn og allir hinir á 40% afslætti. Ég þurfti nefnilega að laumast til að ljósrita passann hans Péturs svo að Ernesto gæti sannað að vinur hans ætti afmæli þegar hann keypti miðana. Fórum í leigubíl á staðinn, vorum 6 farþegar + bílstjóri í 5 manna bíl! Pétur sat fram í og við hin 5 aftur í. Á miðri leið spurði Pétur hvort það væri ekki betra að einn úr aftursætinu kæmi fram í.... “Nei Nei Nei” svaraði bílstjórinn, “það er alveg bannað að hafa 2 farþega í framsætinu”. En allt í lagi að hafa 5 farþega í 3 manna aftursæti! Alla vega, við fórum á þessa þjóðdansasýningu og það var ógeðslega gaman! Sýndir voru þjóðdansar hvaðanæva að í Perú og inni á milli spilaði hljómsveitin fyrir dansi, allir í salsa á dansgólfinu. Síðan byrjaði martröðin, kynnirinn fór að telja upp alla þá sem áttu afmæli og bað þá um að koma upp á svið... Pétur varð hvítari og hvítari í framan þar til að kallað var á afmælisbarnið frá Íslandi... Þetta reddaðist, hann þurfti ekki að tala í míkrófóninn. Svo ráku krakkarnir mig upp á svið líka og við enduðum í einhverjum risahringdansi. En sagan er ekki búin því skyndilega heyri ég kallað: Eruð þið frá Íslandi?!!! Þá voru 2 íslenskar stelpur þarna líka, ég hafði reyndar tekið eftir þeim fyrr um kvöldið því mér fannst þær svo íslenskar í útliti. Þær höfðu líka tekið eftir okkur en urðu svo alveg vissar þegar þær heyrðu kynninn kalla Ísland. Þetta eru sem sagt tvær 18 ára stelpur úr Hafnarfirði, önnur er skiptinemi í Argentínu og hin í Perú og þær þekkja systur hans Péturs! Heimurinn er lítill, í 8 milljón manna borg í S-Ameríku hittum við tvær hafnfirskar stelpur á einhverri þjóðdansasýningu sem er í gangi á hverju kvöldi og þær þekkja Báru! Frekar fyndið.
Í gærkvöldi fórum við út að borða í tilefni þess að Pétur er orðinn gamall maður. Fórum á rosa fínan veitingastað með útsýni yfir Kyrrahafið. 3 rétta máltíð með góðri þjónustu og drykkjum á 5000 kall. Rosalega dýrt fyrir Perú en fyrir uppa frá Íslandi næstum ókeypis. Uppaskapurinn datt svo algjörlega út þegar við áttum að borga, þurftum að skrifa á kreditkortakvittunina hvað við vildum tippa mikið... þurftum að láta þjóninn útskýra fyrir okkur hvernig þetta gengi fyrir sig... var frekar vandræðalegt! En hann sér okkur hvort eð er sennilega aldrei aftur. J
Það er svolítið fyndið hérna, allir læknar ganga með hlustunarpípuna sína um hálsinn, heima þykir það nú alveg það hallærislegasta af öllu hallærislegu. Hér er það hálfgert stöðutákn. Svo kann enginn að heilsa með handabandi, það heilsa allir eins og þeir hafi ekki vöðva, rétt dingla höndinni í höndina á manni.
Við vorum í strætó í gær þegar ég sé unglingsstrák labba hinum megin við götuna, svo er eins og hann hugsi sig um, hleypur svo að strætónum, hoppar upp og stingur hendinni inn um opinn gluggann og stelur einhverju af manninum 5 sætum fyrir framan mig. Ég var með opinn gluggann og var nýbúin að vera að taka myndir. Karlinn fyrir aftan mig sagði mér strax að loka glugganum og karlinn hinum megin við ganginn hafði miklar áhyggjur af myndavélinni. Ég vil nú samt meina að það myndi vera erfitt að stela af okkur Pétri í strætó, ég hef t.d. myndavélina alltaf fasta við úlnliðinn á mér þegar ég er að taka myndir í strætó. Svo koma alltaf betlarar og sölufólk inn í strætó af og til, í gær komu 2 stelpur sem sungu og spiluðu á greiðu í strætó, báðu svo fólk um að kaupa af sér karamellur. Pétur aumkaði sig yfir aðra þeirra og keypti karamellu en neitaði svo að fá karamelluna sjálfa. Stelpan brosti bara voða hamingjusöm og fór út.
Eitt svolítið merkilegt, var búin að segja ykkur frá að ég þarf að kyssa alla sem ég hitti. Svo hefur reyndar ekki verið um sjúklinga en í gær var ég sem sagt kysst af sjúklingi og deildarlæknirinn líka þar sem hún var líka kvenkyns. Hef ekki verið kysst í viðtali áður við sjúkling... jú fyrir utan skiptið sem ég fékk einn rennblautan á kinnina frá 3 ára herramanni í sumar. J
Jæja, í dag er bara skýjað hérna í Lima. Við búin að fara á spítalann í morgun og sjá 8 HIV sjúklinga. Eg og buddan mín aetlum nuna ad nýta okkur sídasta daginn á útsolunum...
Perúkoss, Berglind
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment