Wednesday, January 24, 2007

Midbaejaraevintýri



Èg var ekki glod i gaerkvoldi, for a internetkaffi i klukkutima, tad tok 57 minutur og ég er ekki ad grínast ad koma inn einni bloggfaerslu og setja vid hana myndir og ég gerdi ekkert annad. Ytti svo a publish og ta datt allt ut! Mer fannst tad midur skemmtilegt. Adeins ad ausa úr skálum biturleika míns. ;)
Faerslan kemur tvi her an mynda, mun kannski baeta vid myndunum ef eg nenni:

Á sunnudaginn (eina frídaginn okkar í vikunni) tókum við fyrir miðbæinn í Lima. Fengum frábært veður, eiginlega bara of heitt. Alveg heiðskírt sem er ekki endilega gefið hér í Lima. Byrjuðum á því að fara niður í miðbæ og náðum þar í rútu sem fer upp á eitt “fjallið” hér í kringum Lima. Þetta “fjall” er 409 m hátt og á því stendur risastór kross. Staðurinn kallast San Cristóbal. Þaðan getur maður horft yfir stóran hluta Lima. Við fórum sem sagt þarna upp í rútu en leiðin liggur í gegnum eitt fátækasta hverfi Lima, Rímac. Þar á maður ekki að vera að sveifla myndavélinni sinni. Við keyrðum sem sagt í gegnum Rímac, og jesús, hvernig gæðunum er misskipt í heiminum. Húsin eru þarna lítil, samt ekki svo illa hirt. Á mörgum húsum eru ekki þök heldur hefur fólk raðað saman ýmsum plönkum og spýtum til að hafa eitthvað “þak” yfir höfuðið. Jæja, við alla vega komumst upp að San Cristóbal og horfðum þar yfir Lima í hitanum. Flott að sjá. Við krossinn er hægt að kveikja á kerti sem ég gerði fyrir afa minn heitinn og ömmu Stínu. Tókum svo fullt, fullt af myndum, eins gott að maður þarf ekki að borga framköllun lengur! Jörðin þarna uppi ógeðsleg samt, malbikið horfið undir þykkt lag af tjöru, tjaran festist undir skónum og maður rennur til eins og í drullusvaði, ekki mjög girnilegt. Við fórum niður aftur hálftíma seinna og gengum út á brú yfir ánni sem liggur í gegnum Lima. Ég er að taka mynd af Pétri hinum megin við götuna þegar upp að honum gengur skóburstari, ungur strákur, sem fer að tala við hann. Byrjar á að heilsa Pétri með hinu alvanalega töffarahandtaki sem tíðkast hér í Perú á meðal stráka. Hann spyr okkur svo náttúrulega eins og langflestir gera hvort við séum saman. Við segjum nei. Svo kveður hann okkur með orðunum: bambino pronto. Barn fljótt. Ok! Stuttu seinna hittum við bandarísku stelpu, Stephanie, sem er ein á ferð hér og fer á miðvikudaginn. Spjölluðum aðeins við hana. Héldum ferð okkar svo áfram niður á Plaza de las arma, aðaltorgið í Lima. Þar gengur upp að okkur eldri maður frá Perú sem fer óumbeðinn að lýsa fyrir okkur öllu sem við getum gert í miðbænum, endaði á að segja okkur að fara varlega sem allir virðast vera óþreytandi á að gera. Það var reyndar mjög gaman að tala við þennan mann. Settumst svo niður örlitla stund og þá kemur að okkur gömul kona að reyna að selja okkur dúfnamat. Við segjum nei takk en hún fer þá að spyrja hvaðan við séum og hvar við höfum lært spænsku. Þegar hún heyrir minnst á Spán segir hún með grettu: Fea Espana (ljóta Spánn). Fór svo þegar hún áttaði sig á því að við myndum ekki kaupa neitt af henni. Við fengum okkur svo að borða og héldum áfram. Röltum smá hring og komum svo aftur að Plaza de las Armas. Stoppum þar á horni til að taka myndir en hinum megin við götuna standa nokkrar löggur sem fara að fylgjast með okkur (svona by the way þá eru löggur úti um allt í Lima, sérstaklega í miðbænum og í Miraflores sem er aðal túristahverfið, þær brosa alltaf til manns og passa upp á mann). Við förum síðan yfir götuna og stöndum þarna í rólegheitum á horninu þegar Pétri bregður eitthvað við, hafði fengið fuglaskít í hárið! Þá sitja ansi margar dúfur í gluggasyllum á húsinu ofan við okkur. Löggunum finnst þetta alveg bráðfyndið. Pétur fer síðan að hoppa eitthvað um og hlæja, þá kemur ein löggan og réttir Pétri bréf, hann fær svo spritt hjá mér og er eitthvað að bagsla við að losa sig við óþverrann úr hausnum. Réttir mér svo bréfið með skítnum... sem ég vil náttúrulega ekkert taka við. Löggurnar hlæja þá enn hærra. Jæja, við röltum þarna yfir torgið og verðum vitni að einhverri furðulegri hergöngu. Þegar henni lýkur kemur upp að mér svona 13 ára stelpa og vill endilega fá að taka mynd af mér með sér. Segir pabba sinn vera með myndavél þarna rétt hjá. Ég skildi þetta nú ekki alveg, skildi ekki af hverju hún vildi endilega fá af mér mynd, datt helst í hug að hún ásamt einhverjum félögum sínum væri að reyna að ræna mig. Sýnist þetta þó vera allt í lagi og segi bara já, ég meina af hverju ekki og dreg Pétur með mér. Þá koma 2 yngri stelpur, sennilega systur hennar og eru að snerta pilsið mitt. Þá hætti ég nú eiginlega við, maður er svo tortrygginn, hélt þær væru að reyna að komast ofan í vasana. Loks kemur mamman aðsvífandi, tannlaus, og spyr hvort við séum ekki til í að vera á einni mynd. Fjölskyldan vildi sem sagt bara fá hávöxnu ljóshærðu risana með sér á mynd. Svo við létum undan. Stelpan var alveg yfir sig hamingjusöm og kyssti mig og faðmaði takk eftir á. Við héldum svo för okkar áfram og fórum að skoða dómkirkjuna. Gengum þaðan að frægri kirkju rétt hjá sem heitir San Francisco. Þar er ég að taka myndir þegar framhjá gengur um 9 ára stelpa með pabba sínum og spyr pabba sinn: “Hvað er hún að gera?” Hafði sennilega aldrei séð stafræna myndavél áður. Pabbinn svarar sem er að ég sé að taka myndir. Ég sný mér þá við og brosi til hennar. Þá spyr hún mig hvað ég tali.... sem sagt hvaða tungumál. Ég segi henni það og tek mynd af henni í leiðinni. Sýni henni svo myndina á skjánum á myndavélinni, hún varð alveg yfir sig hamingjusöm, brosti út að eyrum og sagði takk tvisvar. Sjá myndina hér til haegri.

Við héldum áfram að rölta, förum aftur yfir að Plaza de las Armas þar sem löggan Willie gefur sig á tal við okkur, ræðum skólamál í Perú og Íslandi. Tökum svo nokkrar myndir og stöndum þarna aðeins eins og illa gerðir hlutir. Þá er allt í einu komin fjölskylda við hliðina á okkur, að taka mynd af sér við torgið. Ég vippa mér frá, vil ekki vera óvart inni á myndinni. Þá segir unglingsstelpan í hópnum við pabba sinn: “æ, ég hefði líka viljað mynd af henni”. Svo snúa þau sér öll við og horfa á mig og brosa. Við göngum svo fram hjá þeim og þá smella þau af mynd um leið og ég geng fram hjá. Ég fór þá bara að hlæja og sneri mér að þeim. Stelpan spyr þá hvort við séum til í að vera með þeim á mynd. Við sögðum bara já og brostum okkar blíðasta. Lét fjölskylduföðurinn líka taka mynd á mína vél í þetta skiptið! Sjá hér til vinstri. Maður er farinn að halda að maður líkist einhverri kvikmyndastjörnu. Það var reyndar, að mér fannst, eitthvað óvanalega mikið um að fólk horfði á okkur í dag. Reyndar sunnudagur, frídagur, og allir Limabúar úti á röltinu. Kannski óvanir að sjá ljósa risa ganga um borgina sína. Tókum síðan strætó heim. Dyravörðurinn í strætó segir alltaf þegar fólk ætlar út: “baja, baja, baja, baja....”. Baja þýðir: farðu niður. Í kvöld sagði þessi: “baja, princesa”. Já ég er prinsessa í Perú, fræg prinsessa. Ég er fræg eins og hún amma mín. Fatti þeir sem fattað geta. :)

Þetta er reyndar svolítið fyndið með áhugann sem fólk hefur á okkur ljóshærðu risunum. Ég sat á bekk á föstudaginn og var að lesa þegar skyndilega ég sé skærbleikan bol fyrir framan, þá var þetta lítil 5 ára perúísk stelpa sem virtist vera þarna ein. Vildi vita hvað ég héti, hvar maðurinn minn væri og hver hefði keypt bolinn sem ég var í. Á laugardagskvöldið settumst við niður á veitingastað úti við og vorum að bíða eftir matnum okkar þegar upp að okkur kom einhver maður (sem var alltaf að skyrpa á mig!) og vildi endilega fá okkur í partý með sér og á ströndina daginn eftir. Vildi endilega mynd af mér og ætlaði bara ekki að fara. Var frekar fyndinn fyrst, við hlógum og hlógum, urðum svo pínu þreytt á honum. Svo í gær vorum við að labba við “ströndina”, þá kom svona 10 ára strákur og vildi endilega að Pétur tæki mynd af sér. Pétur gerði það og þurfti að bæta annarri við með allri fjölskyldu stráksins! Strákurinn brosti út að eyrum eftir þetta. Hittum reyndar líka þarna á göngu okkar sætasta hvolp ever. Spjölluðum aðeins við eigandann og fengum að taka myndir af voffa litla, sjá hér til vinstri. Voffi er bara 2 mánaða og ji minn eini hvað hann er sætur, líka svo sætt að sjá hann ganga, rassinn dillaði allur. ;)
Fórum í Lavandería áðan (svona fatahreinsun). Erum nefnilega ekki með þvottavél og finnum enga lavandería þar sem maður getur þvegið sjálfur. Þetta eru svolítil vandræði þar sem fæst svona þvottahús vilja þvo nærföt og sokka. En við fundum þarna eitt, konurnar létu okkur fá bala og við þurftum að hrúga öllum skítugu nærfötunum og sokkunum í þá. Svo fóru þær að telja nærbuxurnar, já þið hefðuð þurft að sjá svipinn á Pétri þegar ókunnugar konur byrjuðu að handfjatla nærfötin hans... híhí. Svo var enn fyndnara a leidinni heim fra tvottahusinu, Petur leit eitthvad i toskuna sina og tar var byssukula. Hann er sem sagt buinn ad ferdast med byssukulu i toskunni fra islandi til perú, i gegnum USA. Ekki tad ad madur geti nokkud gert vid eina byssukúlu.

En já, ég var örugglega búin að tala um krakkana sem hoppa alltaf upp í strætó og betla um pening, vanalega reyndar gera þau eitthvað, tala voða mikið með vælandi röddu eða syngja. Áðan kom hins vegar ótrúlega flottur og sniðugur strákur upp í strætó, hann var svona 11 ára og klæddur í trúðabúning. Pétur hafði verið alveg við það að sofna í strætó en þetta vakti hann alveg. Strákurinn kom inn og byrjaði að segja við farþega að hann þetta betl væri sko bara samkeppni, þess vegna væri hann klæddur í trúðabúning, og að hann ætlaði sko ekki að væla um að mamma hans væri á spítala eða að amma hans væri ólétt eða bla bla bla. Svo byrjaði hann að tala við fólk, þóttist vinna fyrir strætófyrirtækið og að það vantaði 20 sent upp á fargjaldið hjá fólkinu. Var alveg sjúklega fyndinn og ég og Pétur sem sátum aftast vorum að kafna úr hlátri. Síðan kom hann að okkur, leit á okkur og sagði: “ þið eigið sko pottþétt pening”. Ég lét hann fá 50 sent sem honum fannst mikið. Svo fór hann aftur fremst í strætó og byrjaði að leggja bölvun á fólkið sem hafði ekki gefið honum pening.... sagði að hann myndi sko ekki tala vel um það þegar hann væri kominn til himna. Talaði um litla púka og etc etc etc. Hann var sko skemmtikraftur af guðs náð. Svo leit hann alltaf aftast í strætó við og við og sá að Pétur var alveg að deyja úr hlátri. Svo sagði hann: “Señor (og átti við Pétur), konan þín gaf mér pening en ekki þú” og þóttist svo leggja einhverja bölvun á Pétur og við hlógum enn meira. Mjög skemmtilegt strætó-atvik. Ég meira að segja náði mynd af snillingnum svona í laumi.

2 comments:

Tiny said...

Þetta er frábærlega skemmtilegt blogg hjá þér Berglind. Maður lifir sig alveg inn í sögurnar.

Bestu kveðjur
Þórir Már

Berglind said...

Gaman ad heyra, tannig er tetta skemmtilegast!