Nú erum við búin að vera hér í Iquitos í 6 daga. Hér er búið að vera ofsa heitt, Iquitos-búum finnst vera alltof heitt og þá finnst okkur sko vera alltof alltof heitt. Hitinn er búinn að vera um 36-37°C og rakinn um 45%. Ég þoli þetta samt ótrúlega vel, ég hélt ég myndi kafna en mér líður bara ágætlega. Spítalinn búinn að vera frábær, hann lítur mun betur út en spítalinn í Lima. Læknarnir 2 sem kenndu okkur eru líka vægast sagt frábærir. Í rauninni eru engin tengsl á milli þessa spítala og spítalans í Lima en annar læknanna er vinur læknisins sem sá um veru okkur í Lima. Þannig komumst við hingað. Þessi læknir heitir Dr. Hinojosa og er í sumarfríi en mætir samt á spítalann til að kenna okkur! Í gær var síðasti dagurinn hennar Mercedes þannig að við buðum læknunum okkar tveimur í hádegismat (Dr. Hinojosa og Dr. Lazo) og þeir völdu staðinn. Við fórum á fljótandi veitingastað úti á miðju Amazon fljóti sem heitir El frío y el fuego (kuldinn og eldurinn), tókum bát þangað sem okkur leist nú alls ekki á í byrjun, hann valt heldur mikið! Þetta varð síðan afbragðs hádegismatur á afbragðs veitingastað í góðra vina hópi. Vægast sagt frábært. Síðan langaði okkur Mercedes að fara á markaðinn aftur og drógum Pétur með okkur. Æ, ég lýsi þessu bara aftur: Málið er nefnilega að hér í Iquitos er hverfi sem heitir Belén og yst í hverfinu (næst miðbænum) er markaður sem allir túristar fara að skoða. Þetta er svona ekta markaður, þú getur fengið nær hvað sem hugurinn girnist... það er að segja ef þú hefur lyst á því! Þarna er hægt að kaupa orma, dauða kjúklinga, dauðar skjaldbökur, alls konar náttúrulækningadót etc etc etc. Markaðurinn er safe að fara á (ef maður er ekki að sýna nein verðmæti) en hverfið sjálft er hættulegt. Þangað á maður ekki að fara nema fyrir klukkan 3 á daginn og þú átt að ekki að fara með nein verðmæti þangað, ekki myndavélar, hálsmen, eyrnalokka, úr etc. Það á hins vegar að vera mjög gaman að sjá þetta hverfi, lýsingin á því í Lonely Planet er sem hér segir:
“Belén itself is a floating shantytown with a certain charm to it (the locals call it the Venice of the Amazon, but others would call it a slum). It consists of scores of huts built on rafts, which rise and fall with the river. During the low-water months, these rafts sit on the river mud and are dirty and unhealthy but, for most of the year, they float on the river – a colorful and exotic sight. Several thousand people live here, and canoes float from hut to hut selling and trading jungle produce.” – Lonely Planet, Peru.
Eins og sagði í einhverri færslu hér áður fórum við sem sagt á þennan markað fyrir 2 dögum, mér og Mercedes fannst það æði en Pétur var ekki eins hrifinn. Okkur Mercedes langaði svo að fara þarna aftur með einnota myndavél og jafnvel kannski rölta niður í hverfið sjálft og Pétur sem gat ekki hugsað sér að senda stelpukjánana einar inn í eitt hættulegasta hverfið í Iquitos dröslaðist með. Við byrjuðum á að labba aðeins um markaðinn og fórum svo og stóðum við stigann sem liggur niður í hverfið sjálft. Klukkan var að hálffjögur og það fóru að renna tvær grímur á mig og Mercedes... áttum við að þora? Pétur var hins vegar orðinn galvaskur og vildi fara svo við spurðum lögregluþjón þarna rétt hjá hvort þetta væri safe og hann sagði að það væri allt í lagi enn ef að við værum ekki með nein verðmæti. Við vorum ekki með neitt nema einnota myndavél og nokkrar sólir svo við röltum þarna niður. Þetta var ótrúlegt, húsin stóðu öll á stöplum, fullt af fólki, ótrúlegt hvernig fólk býr, allir, já ALLIR, horfðu á okkur og hrópuðu hola hola. Við sáum hins vegar ekkert vatn! Þá kom upp að okkur 19 ára strákur sem býr þarna og bauðst til að sýna okkur hverfið og taka okkur í bátsferð. Við bara sögðum já og sáum ekki eftir því. Hann sýndi okkur meirihlutann af hverfinu, gekk með okkur niður að ánni og við fórum í bátsferð um hverfið sem er fljótandi á þessum árstíma. Sáum fljótandi búðir, hús, fólk, skóla, kirkju, etc etc etc. Sum hús standa á stöplum en flest fljóta á ánni og fylgja henni hvort sem lítið er í henni eða mikið. Þeir sýndu okkur líka risavatnaliljur, blómin reyndar eru ekki í blóma seinnihluta dags en laufblöðin eru risastór, um metri í þvermál. Strákurinn sagði okkur svo að flestir túristarnir komi niður í hverfið á morgnana, mjög fáir eftir hádegi því að það sé hættulegra. Hann hafi séð okkur á vappi og ákveðið að bjóða okkur rúnt því það væri meira safe (og svo borguðum við honum náttúrulega fyrir líka!!!)
Á miðvikudaginn (eftir spítalann) fórum við að vatni rétt hjá Iquitos sem heitir Quistococha. Við tókum motocarro (3 hjólamótorhjól) þangað og það var bara mjög gaman, sáum hverfi í Iquitos sem við hefðum annars ekki séð. Við Quistococha sem er mjög fallegt vatn umkringt frumskógi er dýragarður og tilbúin strönd. Dýragarðurinn var mjög skemmtilegur, sáum m.a. höfrung. Þarna fengum við svo að halda á slöngum aftur, við erum orðnir algjörir slöngutemjarar. Fengum tvær slöngur í einu! Ég kyssti aðra þeirra, fyrir tilskipan slöngueigandans! Þarna var líka plöntu- og trjágarður þar sem við sáum ýmsar tegundir af gróðri sem vex í frumskóginum hér. Það var hrikalega heitt! Við vorum að deyja, sem betur fer gat ég ekki séð sjálfa mig en Pétur leit út eins og hann hefði nýlokið við maraþon. Það lyftist hins vegar heldur á okkur brúnin þegar við komum að rjóðri þar sem búið var að hengja upp kaðal og maður gat sveiflað sér í frumskóginum! Við tókum náttúrulega smá Tarzan og Jane á þetta og neyddum Mercedes svo til að róla sér smá í lokin. Ýttum henni eiginlega af stað!
Í gærkvöldi kvöddum við Mercedes. Hún flaug til Lima og er á leiðinni í ferðalag með fjölskyldunni sinni og fer svo aftur til Bandaríkjanna í næstu viku. Við fórum svo út að borða, Pétur borðaði krókódíl og ég borðaði dádýr. Í dag var svo síðasti dagurinn okkar hér á spítalanum. Á morgun höldum við nefnilega inn í frumskóginn þar sem við ætlum að vera í nokkra daga. Þar munum við heimsækja lækninn sem ég sagði ykkur frá um daginn. Ég hlakka til!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment